Nýlega kom út hjá forlaginu Bókabeitan bókin Samhengi hlutana eftir rithöfundinn Eygló Jónsdóttur en hún er búsett i Vogum og hefur tekið virkan þátt í menningarstarfi hér í bæ um árabil. Bókin samanstendur af fimm smásögum úr daglega lífinu og fjórum þáttum úr lífi Jónasar sem var sannarlega óskabarn þjóðarinnar og giskar ritari á að hér sé um að ræða Jónas Hallgrímsson en um það skal þó ekki fullyrt. Eygló hefur gefið út allnokkrar bækur, meðal annars gaf hún út barnabókina Ljóti jólasveinninn árið 2017og ljóðabókina Áttun árið 2018.
Eygló er með meistaragráðu í ritlist og situr í ritnefnd fyrir tímaritið Mannúð, sem fjallar um frið og mannréttindi. Árið 2019 var Eygló valin til þess að verða fyrsta ljóðskáld Suðurnesja í Skáldaskápnum á bókasafni Reykjanesbæjar, en verkefnið hóf göngu sína rétt fyrir jólin 2019 og var Eygló þá fyrsta skáldið til að vera valin í Skáldaskápinn. Þá var hún sömuleiðis valin til þess að semja 17. júní ljóð fjallkonunnar fyrir Hafnarfjarðarbæ 2019.
Eygló hefur einnig skrifað fjölda greina í blöð/tímarit, haldið fjölda fyrirlestra um friðar og mannúðarmál og ljóð eftir hana og sögur hafa birst í safnritum. Eygló verið dugleg að sinna og skipuleggja ýmsa menningarviðburði í Vogunum. Má þar nefna að fyrir jólin 2019 skipulagði hún ásamt Eyrúnu dóttur sinni sem einnig er rithöfundur Ljóðakaffi í Álfagerði og var fullt hús áhorfenda. Þá tóku þau hjónin Eygló og maðurinn hennar þátt í safnadeginum í Vogum fyrr á því árið með því að lána stafasafnið sitt, og Eygló hefur þar að auki lesið upp ljóð eftir sig á viðburðum bæjarins.