Nú er það svart! Móarnir allt í kring eru svartir af gómsætum krækiberjum. Það mesta sem ég man eftir. Þau þroskuðust snemma og voru orðin svört í lok júlí. Fuglarnir hafa verið í berjamó í allt sumar og dritað bláu um allt, sumum til sárrar skapraunar. Eitthvað af mannfólki hefur líka brugðið sér í berjamó - en það sér ekki högg á vatni, enn eru ber út um allt.
Ég brá mér út að Vogastapa í gær í indælis veðri og tíndi 10 lítra af safaríkum krækiberjum á rúmri klukkustund - reyndar með berjatínu. Síðan set ég þau í ávaxtapressu og þá verður til krækiberjasaft - kaldpressuð. Svo bætir maður 10- 15% af sykri í og þá er orðinn til ómótstæðilegur og tiltölulega hollur drykkur með fullt af C-vítamíni. Síðan hellir maður snarpheitu vatni yfir hratið og fær þannig til viðbótar annars flokks saft sem er ágæt í berjagraut eða jafnvel í hlaup.
Þegar ég var barn um miðja síðustu öld var berjasaft eini ávaxtasafinn á boðstólum og mér fannst hann rosalega góður. Nú er völ á alls kyns innfluttum safa og margir hafa ekki fyrir því að fara rétt út fyrir húsdyrnar og tína. Þó sér maður einn og einn bregða sér í berjamó en mér virðist börnin fara minna en áður.
Nú fer hver að verða síðastur að ná sér í ber áður en frostið fer að spilla þeim. Látum nú hendur standa fram úr ermum og krækjum í þessa villtu og ómenguðu ávexti íslenskrar náttúru.
Verði ykkur að góðu.
Þorvaldur Örn