Nóvemberpistill umhverfisnefndar

Samantekt eftir verkefnisstjórafund Staðardagskrár 21 haldinn í Mosfellsbæ 13. nóv. 2007

Fulltrúi úr umhverfisnefnd Voga, sat fundinn til upplýsingar.  Hugmyndin er að hefja vinnu á næstunni við innleiðingu Staðardagskrár 21 í sveitarfélaginu.  Þessi pistill er samantekt eftir fundinn og er settur hér fram íbúum til upplýsingar.

Það er ekki hægt að segja að Sveitarfélagið Vogar standi sig illa í umhverfismálum miðað við þau 14 sveitarfélög sem sendu fulltrúa á fundinn.  Unnið er að margvíslegum málum í hverju sveitarfélagi fyrir sig og erum við þar enginn eftirbátur – nema  ef vera skyldi í fræðslu til íbúa og í innleiðingu grænfánaverkefnisins í grunn- og leikskóla.  Í flestum sveitarfélögunum voru fleiri en einn skóli að vinna við eða búinn að fá grænfánann.

Fulltrúar frá Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 lögðu áherslu á að sveitarfélögin nýttu sér ráðgjöf og námskeiðahald sem boðið er upp á.  Sú þjónusta er sveitarfélögum kostnaðarlaus en verður að öllum líkindum ekki til staðar eftir 2009 þegar núverandi samningur við ríkisvaldið rennur út.
Þjónustan snýst meðal annars um ráðgjöf í einstökum málum t.d. fráveitu- og neysluvatnsmálum, svo eitthvað sé nefnt.  Nefndir sveitarfélagsins og stofnanir geta leitað eftir ráðgjöf og fengið á fund sinn fulltrúa frá skrifstofu S21. Umhverfisnefnd Voga hefur tvívegis fengið fólk frá Landsskrifstofunni á fund hér, síðast Stefán Gíslason á opinn fund í Tjarnarsal.

Eftirfarandi eru hugmyndir sem fram komu á fundinum í Mosfellsbæ og hafa verið framkvæmdar í einhverjum sveitarfélögum.  Nokkrar þessara hugmynda hafa verið ræddar í umhverfisnefnd og gætu jafnvel komið til framkvæmdar:

  Vinna að grænfánaverkefninu í grunn- og leikskóla

  Vinna að bláfánaverkefninu fyrir höfnina

  Kolefnisjafna bíla sveitarfélagsins og gróðursetja í samvinnu við Skógfell

  Fá grenndargáma / auka möguleika íbúa

  Hvetja stofnanir sveitarfélagsins í flokkun, endurvinnslu og nýtingu 

  Minnka grasslátt og áburðargjöf á afmörkuðum svæðum og sá blómafræjum

  Búa til atburðadagatal umhverfisnefndar / hreinsunardagar, gönguferðir, stórstreymi, umhverfisviðurkenningar, fundir nefndarinnar, hátíðir, visthópar, o.s.frv.

  Benda fólki sem byggir í sveitarfélaginu, á mikilvægi þess að búa sér til aðstöðu heima til þess að flokka – gæti fylgt byggingarleyfi

  Bjóða hópum, félagasamtökum og áhugasömum íbúum upp á að hreinsa, kantskera, hugsa um beð, klippa tré og fleira umhverfistengt í sveitarfélaginu (samfélagsskylda)

  Úr hópi starfsmanna stofnana verði valinn umhverfisfulltrúi. Þeir haldi sameiginlega fundi og komi með tillögur og vinni að innleiðingu einstakra verkefna á sínum vinnustað.

  Könnun um umhverfismál verði lögð fyrir íbúa / ekki á pappír – fulltrúar nefndarinnar koma sér fyrir á fjölförnum stöðum og spyrja íbúa

  Sveitarfélagið eigi reiðhjól sem starfsmenn þess geta notað til þess að ferðast á milli stofnana

  Umhverfisdagur að vori og hausti – í framhaldi verði haldinn íbúafundur um umhverfismál og niðurstaða könnunar kynnt

  Bærinn gangi á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum

Það sem virðist hrjá flest sveitarfélög er eftirfylgni mála, við erum engin undantekning þar.  Víða eru fulltrúar umhverfisnefnda að vinna að málum sem ná langt út fyrir þeirra verksvið og reka á eftir að málum verði sinnt. 

Út frá umræðupunktunum á fundinum mátti heyra að Sveitarfélagið Vogar er enginn eftirbátur þeirra 14 sveitarfélaga sem um ræddi.  Hér er verið að vinna að mörgum málum og gera góða hluti. Við fengum meðal annars hrós fyrir umhirðuáætlunina sem er á netinu og ómetanlega hvatningu frá nágrönnum okkar nær og fjær á suðvesturhorni landsins. 

Við megum þó ekki gefast upp í erfiðum málum og verðum að vera vel vakandi varðandi flest það sem snýr að umhverfismálum í sveitarfélaginu.