Norræn umræða og viðburðir hafa verið áberandi í fjölmiðlum undanfarna daga og vikur. Áhugi á norrænu samstarfi og á málefnum norðurslóða virðist fara vaxandi. Norræna ráðherranefndin fundaði hér í síðustu viku og fengum við að fylgjast með afhendingu verðlauna Norðurlandaráðs í beinni útsendingu í sjóvarpi okkar allra. Íslendingar hrepptu verðlaun fyrir bestu kvikmyndina annað árið í röð.
Ánægjulegt er að segja frá því að Norrænu félögin á Suðurnesjum, í Garði, Grindavík, Reykjanesbæ og Vogum standa að Norrænum kvikmyndadögum í bíósal Duushúsa í Keflavík 11., 12. og 14. nóvember næstkomandi. Til þessa verkefnis fengu félögin styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Norræna félagið, sveitarfélögin og Nesfiskur standa einnig að baki félögunum í þessu verkefni. Allir fá þeir einlægar þakkir fyrir að gera þennan viðburð mögulegan.
Það er metnaðarfullt hjá Norrænu félögunum að fara af stað með viðburð eins og þennan í elsta kvikmyndasal landsins. Í boðið eru sex listrænar, vandaðar og margverðlaunaðar norrænar kvikmyndir. Norræn kvikmyndagerð er sérstök fyrir margra hluta sakir. Það er því við hæfi og ánægjulegt að Norrænu félögin skuli standa að þessum viðburði. Veg og vanda af vali mynda og umsjón hefur Guðmundur Magnússon, kvikmyndagerðarmaður hjá Steinboga kvikmyndagerð í Garði. Hann fær okkar bestu þakkir fyrir þá ómældu vinnu sem hann hefur lagt í verkefnið.
Þessa sömu viku, 9.-15. nóvember stendur yfir Norræna bókasafnavikan á öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Standa bókasöfnin að upplestri og öðrum viðburðum í þeirri viku. Eru allir hvattir til að fylgjast með auglýsingum í sveitafélagi sínu og mæta á það sem þar er í boði. Einnig eru Suðurnesjamenn hvattir til að mæta í bíó og sjá norrænar gæðamyndir, -og aðgangur er ókeypis.
Áhugasamir geta kynnt sér sögu norræns samstarfs á slóðinni; http://www.norden.org/is/om-samarbejdet-1/saga-norraens-samstarfs
Fyrir hönd Norrænu félaganna á Suðurnesjum,
Erna M. Sveinbjarnardóttir, formaður í Garði
Smellið hér til að sjá dagskrá kvikmyndadaga
Greinin var birt á vef Víkurfrétta 3.11.2015