Í desember var hringt í alla íbúa sem eru á kjörskrá og spurt um hug þeirra til sameiningar við önnur sveitarfélög. Endanlegt úrtak í skoðunarkönnnunni var 581 og heildarfjöldi svarenda 463 eða 79,7%. Á kjörskrá í Vatnsleysustrandarhreppi eru 618 kjósendur þannig að svör hafa fengist frá 74,9% kjósenda í hreppnum.
Frá því er skemmst að segja að helstu niðurstöður eru að 63% úrtaks geta hugsað sér að Vatnsleysustrandarhreppur sameinaðist öðru sveitarfélagi.
Lesa má af niðurstöðunum að tillaga sameiningarnefndar um sameiningu allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum myndi ekki hljóta brautargengi í kosningu. Í framhaldi bókaði hreppsnefnd á fundi sínum að hún telji því ekki grundvöllur fyrir kosningu um óbreytta tillögu sameiningarnefndarinnar.
Aftur á móti er ljóst að tæplega helmingur aðspurðra er mjög eða frekar hlynntur sameiningu við Hafnarfjörð og meira en þriðjungur íbúa nefnir Reykjanesbæ. Þessi tvö sveitarfélög liggja að Vatnsleysustrandarhreppi og má segja að eðlilegt sé að þeir sem eru hlynntir hugsanlegri sameiningu nefni þessa kosti. Fjórðungur úrtaks getur ekki hugsað sér sameiningu við neitt annað sveitarfélag.
Nefnd um sameiningu sveitarfélaga hefur fengið niðustöður könnunarinnar í hendur og hefur hún boðið hreppsnefnd til fundar við sig föstudaginn 7. janúar. Nefndin mun í framhaldinu ákveða hvaða tillögu hún gerir um sameiningu Vatnsleysustrandarhrepps við önnur sveitarfélag.
Hér má sjá könnunina.