Nemendur úr Kennaraháskólanum í heimsókn

Föstudaginn 11. apríl komu rúmlega 30 nemendur úr Kennaraháskólanum í heimsókn í boði bæjarstjórnar. Bæjarstjóri fór með rútu í Kennaraháskólann, sótti hópinn og kynnti fyrir þeim Vatnsleysuströndina áður en komið var i Voga, en fæst þeirra höfðu farið þá leið. Heimsóknin er liður í stefnu bæjarstjórnar að laða að fleiri fagmenntaða starfsmenn á sviði fræðslu- og félagsmála.

Í Vogum kynntu nemendurnir sér starfsemi íþrótta- og félagsmiðstöðvarinnar, Heilsuleikskólans Suðurvalla og Stóru- Vogaskóla. Var gerður góður rómur að aðbúnaði og starfseminni, en sem kunnugt er hefur verið unnið ötullega að því að bæta aðstöðuna undanfarin ár. Áhersla leikskólans á hreyfingu barnanna og vettvangsferðir vakti sérstaka athygli nemendanna.

Að lokinni kynningu í Stóru- Vogaskóla var hópnum boðið upp á léttar veitingar og tekið lagið við gítarspil.