Mótum framtíðina okkar sjálf

 

Miðvikudaginn 31. janúar síðastliðinn var haldinn fundur í Tjarnarsal þar sem Stefán Gíslason, verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi fjallaði um sjálfbæra þróun, Staðardagskrá 21 og hvernig við í Sveitarfélaginu Vogum getum mótað okkur framtíðarsýn í helstu málaflokkum. Fyrirlestur Stefáns var mjög fróðlegur og vakti fólk til umhugsunar. Í kjölfar erindisins spruttu upp miklar og málefnalegar umræður um ýmis mál, smá og stór.

 

Staðardagskrá 21 snýst í raun um að horfa langt fram í tímann með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og samþætta umhverfismál, efnahags- og félagsmál og fá almenning með í að tryggja velferð okkar og afkomenda okkar á sem hagkvæmastan hátt. Virkja hugvit jafnt ungra sem aldna til að horfa langt fram í tímann og setja stefnuna á sameiginleg markmið.

 

Hér í Vogum þurfum við að ráðgera hvaða skref við tökum fyrst. Marka okkur skýra stefnu í þáttum eins og landnýtingu, fjölskyldumálum, skólamálum, atvinnumálum o.þ.h. Þetta tengist mjög aðalskipulagi sveitarfélagsins, en nú er verið að vinna nýja aðalskipulagsáætlun til næstu tveggja áratuga.

 

Við Íslendingar höfum skuldbundið okkur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að stuðla að sjálfbærri þróun, jafnt heima fyrir sem um heim allan. Staðardagskrá 21 eru áætlanir sveitarfélaga fyrir 21. öldina. Við erum þegar komin vel af stað með stefnumótun í þessum dúr, ekki síst í umhverfismálum. Fundurinn var vel sóttur og markaði gott upphaf vinnunar. Nú bíður það bæjarstjórnarinnar að leggja nánari línur fyrir þetta starf.