Mislægu gatnamótin við Voga opnuð

Í dag var umferð hleypt á tvöfalda Reykjanesbraut frá Vogavegi að Grindavíkurvegi og mislægu gatnamótin við Voga opnuð.  

Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikla þýðingu þessi mikla samgöngubót hefur fyrir samfélagið í Sveitarfélaginu Vogum. Nú er búið að tvöfalda nánast alla leiðina milli Hafnarfjarðar og Voga sem eykur til muna öryggi vegfarenda og greiðir götu þeirra á allan hátt. Fjarlægð milli Voga og höfuðborgarsvæðisins í tíma er nú svipuð og milli hverfa og sveitarfélaga innan höfuðborgarsvæðisins.

Til gamans má geta þess að í Sveitarfélaginu Vogum eru nú miklar andstæður í umferðarmálum. Annars vegar róleg umferð í þéttbýli og hinsvegar ,,hraðbrautarumferð".

Í sveitarfélaginu eru fjögur mislæg gatnamót og ein átta hringtorg, en engin umferðarljós. Í þéttbýlinu er lítil og róleg umferð og nær allar götur með 30 km hámarshraða, en tvöföld Reykjanesbrautin er eina ,,hraðbraut" landsins. Samgöngur eru þannig eins og þær gerast bestar á landinu.

Um leið og íbúum er óskað er til hamingju með þennan áfanga eru vegfarendur hvattir til að fara varlega og sýna ábyrgð í umferðinni.

Mynd: Mats Vibe Lund.