Minjafélag Vatnsleysustrandar varð fyrir tjóni í rokinu sem geysaði í desember. Hlaðan Skjaldbreið sem reist var um 1850 og stendur á hlaðinu á Kálfatjörn eyðilagðist mikið þegar suðurveggurinn gaf sig og þakið losnaði og lyftist af veggjunum. Aðrir veggir sem allir eru hlaðnir eru uppistandandi en illa farnir.
Skjaldbreið hefur umtalsvert menningarsögulegt gildi um aðstöðu og lifnaðarhætti útvegsbænda á 19. öld auk þess að vera ómissandi hluti af umhverfinu við kirkjuna og mikilvægur þáttur í sögu staðarins.
Samkvæmt aldursákvæði Þjóðminjavarðar er Skjaldbreið friðuð.
Minjafélag Vatnsleysustrandar vinnur að endurbótum hennar í samvinnu við Húsafriðunarnefnd ríkisins og hefur hluti hlöðunnar verið endurhlaðinn.
Uppbyggingu Skjaldbreiðar verður haldið áfram á komandi sumri. Verkinu þarf að ljúka fyrr en áformað hafði verið og er stefnan sett á að endurhlaða veggina og loka hlöðunni á árinu.
Minjafélagið skipuleggur nú hreinsun á svæðinu.
Á morgun, laugardag kl. 10 ætlum við að taka til hendinni á Kálfatjörn. Öll aðstoð er vel þegin og eru áhugasamir hvattir til að mæta með tilheyrandi verkfæri (hamar og kúbein).
Margar hendur vinna létt verk.
Stjórn Minjafélags Vatnsleysustrandar