Mikil framkvæmdagleði er í Vogum hjá háum sem lágum þessa dagana. Vinnuskólinn er á fullum krafti og leggja krakkarnir sig fram um að fegra bæinn sinn og snyrta, auk þess að sinna garðaumhirðu fyrir eldri borgara og öryrkja. Hafi íbúar ábendingar um verkefni fyrir vinnuskólann má senda t- póst á skrifstofa@vogar.is
Í kofabyggðinni er gengið hraustlega til verks og hefur húsaþyrping risið aftan við Íþrótta- og félagsmiðstöðina. Við hverja húsaþyrpingu er vaninn að tyrfa og hefur vinnuskólinn tyrft töluvert mikið svæði aftan við Íþrótta- og félagsmiðstöðina sem mun nýtast Frístundaskólanum og UMFÞ til íþrótta- og leikja næsta sumar.
Margir einstaklingar og fyrirtæki hafa líka tekið til hendinni á lóðum sínum og við fasteignir sem svo sannarlega bætir ásýnd bæjarins og enn eru nokkur hús í byggingu.
Vegagerðin hefur nýlega lokið við viðgerðir á Vogabraut sem bæta til mikilla muna umferðaröryggi á leiðinni á Reykjanesbraut. Nú má með sanni segja að samgöngur milli Voga og höfuðborgarsvæðisins séu með því besta sem gerist á landinu. Tvöföld upplýst Reykjanesbraut ásamt nýlagðri upplýstri Vogabraut. Samhliða henni vinnur Sveitarfélagið Vogar síðan að gerð göngu- og hjólreiðastígs, en við mislægu gatnamótin stendur til að reisa biðskýli fyrir Reykjanes Express hraðleiðina milli Reykjaness og höfuðborgarsvæðisins.
Á vegum sveitarfélagsins er auk þess unnið að umhverfisverkefnum í Aragerði, við Vogatjörn og uppsetningu trappa í klöppina við Heiðargerðið. Á meðfylgjand myndum má sjá hönnun þeirra verkefna sem unnið er að í sumar, en að framkvæmdum loknum verður búið að mynda mjög skemmtilegt svæði sem nær yfir Vogatjörn og Aragerði. Áningarstaðir verða við listaverkið Íslands Hrafnistumenn, Vogatjörn, innkomu í Aragerði og í rjóðrinu innst í Aragerði. Sá áningarstaður verður nokkurskonar auditorium þar sem hægt verður að vera með kennslu, leik og viðburði. Auk áningarstaðanna má nefna upplýsingaskilti um dýralíf og náttúru í Vogatjörn og fjöru sem hafa vakið mikla athygli.
Yfirlitsmynd
Grunnmyndir
Sneiðmyndir
Tröppur í Heiðargerði
Stígur við Vogabraut
Myndir: Þorvaldur Örn Árnason.