Mikill vöxtur í útlánum hjá Lestrarfélaginu Baldri

Fyrir nokkru var lokið við að skrá bókakost bókasafnsins í Gegni, sem er rafrænt skráningarkerfi bókasafna á landsvísu. Nýja kerfið gerir aðgengi að upplýsingum um bókakost betra en áður var.

Óhætt er að segja að íbúar hafi tekið bókasafninu vel og eru lánþegar safnsins orðnir rúmlega þrjúhundruð talsins. Bókakosturinn er kominn hátt í ellefuþúsund eintök, nú þegar einhver skemmtilegasti tími bókaunnenda fer í hönd. Að sjálfsögðu verða allar helstu bækur jólabækurnar keyptar á bókasafnið og á Guðrún Jónsdóttir bókavörður von á að mikið verði að gera á safninu í nóvember og desember.

"Krakkarnir í skólanum bíða óþreyjufull eftir að nýjar bækur berist" sagði Guðrún aðspurð um stöðu mála á safninu. Af þessum orðum Guðrúnar virðast menn því ekki þurfa að óttast að bóklestur sé á undanhaldi í samfélaginu að minnsta kosti ekki meðal nemenda Stóru-Vogaskóla.

Við hvetjum alla bæjarbúa til að fá sér bókasafnsskírteini fyrir bókavertíðina, ársverð skírteina er aðeins 1.200 kr. og veitir það aðgang að bókakosti allra bókasafna á Suðurnesjum.
 
Almenningsbókasafnið er staðsett í Stóru- Vogaskóla og opið alla mánudaga og fimmtudaga frá kl. 19- 21.