Mikil íbúafjölgun kallar á miðbæjarkjarna í Vogum

Sveitarfélagið Vogar er eitt af þeim sveitarfélögum sem vex hvað hraðast á landinu, en íbúum hefur fjölgað um rúm 42% síðustu 8 árin. Nú um mitt ár 2006 eru íbúar í sveitarfélaginu um 1.050 en þegar Dalahverfið verður fullbyggt við lok árs 2007 má gera ráð fyrir að íbúar í sveitarfélaginu verði um 1.200.

 

Auk þeirrar uppbyggingar sem nú þegar er í gangi og fyrirhugað er að ljúki á árinu 2007, er nú verið að leggja lokahönd á skipulag nýs hverfis norðan við núverandi byggð á svokölluðu Grænuborgarlandi. Í fyrsta áfanga þess hverfis er gert ráð fyrir rúmlega 200 íbúðum, en þegar sá áfangi verður fullbyggður má gera ráð fyrir að íbúafjöldi í Vogum verði nálægt 2.000 íbúar. Vonir standa til þess að framkvæmdir við það hverfi hefjist í vetur.

 

Þessi mikla íbúafjölgun kallar eðlilega á aukna verslun og þjónustu og til að bregðast við þeirri kröfu hefur á síðustu misserum farið fram undirbúningsvinna vegna skipulags miðbæjarkjarna í Vogum. Samkvæmt tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem nú er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, er gert ráð fyrir að miðbæjarkjarni rísi á svæði sem liggur á horni Vogabrautar og Stapavegar. Sú staðsetning er miðsvæðis í bænum, ekki síst með tilliti hins nýja Grænuborgarhverfis, auk þess er gott aðgengi að svæðinu frá Reykjanesbraut. Því ættu að vera miklir möguleikar fólgnir í því að reka verslun og aðra þjónustu í miðbæ Voga. Aukin verslun og þjónustu ætti líka að skapa fleiri atvinnutækifæri í sveitarfélaginu.

 

Hér má nálgast rammaskipulagshugmynd sem arkitektastofan Landslag hefur unnið fyrir sveitarfélagið. Hugmyndin er lögð fram til að skapa umræðu um skipulag miðbæjarkjarnans og nánasta umhverfis og fá hugmyndir frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum um skipulag svæðisins. Nú þegar hafa nokkrar tillögur og hugmyndir borist, en í þeim felst m.a.  að miðbærinn verði skipulagður þannig að þar verði torg þar sem njóti sólar að degi sem kvöldi.

 

Ég vil hvetja áhugasama til að kynna sér málið á vefsíðu sveitarfélagsins og koma hugmyndum sínum á framfæri, t.d. með því að senda tölvupóst á skrifstofa@vogar.is

 

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri