Mikil hækkun á rafmagnsgjaldi vegna húshitunar á Ströndinni.
Hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps lýsir undrun sinni á miklum hækkunum á
verði raforku til húshitunar frá sl. áramótum að telja.
Í dreifbýli í hreppnum eru hús hituð upp með rafmagni og hefur verið tryggt
fram til þessa að eigendur þessara húsa hafa setið við sama borð og
húseigendur í þéttbýli á Suðurnesjum þegar kemur að kostnaði við hitun húsa.
Eigendur húsa í dreifbýli á Vatnsleysuströnd hafa ekki aðgang að hitaveitu
eins og þorri íbúa á Suðurnesjum en hafa þó ekki borið skarðan hlut frá
borði þegar kemur að húshitunarkostnaði til þessa.
Þegar leitað hefur verið eftir möguleikum þess að hitaveita verði lögð inn
Vatnsleysuströnd hefur verið bent á af stjórnendum HS. hf að ekki sé talið
nauðsynlegt að leggja hitaveitu á umræddu svæði, þar sem íbúar hafa
möguleika á að hita upp hús sín með niðurgreiddu rafmagni. Nú er sá kostur
ekki fyrir hendi og telur hreppsnefnd óumflýjanlegt að ráðist verði í
frekari lagningu hitaveitu á Vatnsleysuströnd og hvetur stjórn HS hf. til að
hefja undirbúning slíkrar framkvæmdar hið fyrsta.
Hér að neðan eru tekin dæmi um þær miklu hækkanir sem við blasa:
Minna-Knarrarnes: Reikningur 28. des 2004, kr. 11.956.-
Reikningur 25.jan 2005, kr. 20.772.- Hækkun 74%
Hellur: Reikningur 28. des 2004, kr. 10.384.-
Reikningur 25. jan 2005 kr.19.219.- Hækkun 85%
Stóra- Vatnsleysa: Reikningur 28. des 2004, kr. 13.042.-
Reikningur 25. jan 2005, kr. 25.532.- Hækkun 96%
Narfakot: Reikningur 28. des. 2004, kr. 13.800.-
Reikningur 25. jan 2005, kr. 24.437.- Hækkun 77%