Mikið um að vera í forvarnarmálum

Þessa dagana er mikið um að vera í forvarnarmálum í Vogum. Í dag komu fíkniefnahundur og starfsmenn tollgæslunnar í heimsókn og hittu börnin sem eru í fermingarfræðslunni. Í kvöld verður fyrsta opna hús ársins fyrir ungmenni 16 ára og eldri í félagsmiðstöðinni Borunni.

Maður ársins á Suðurnesjum, Erlingur Jónsson hefur komið á starfsmannafund í Stóru- Vogaskóla og mun hitta nemendur þriðjudaginn 5. febrúar kl. 9.35 til að kynna starfsemi Lundar. Í kjölfarið verður forvarnarfundur með foreldrum mánudaginn 11. febrúar kl. 17.00. Gestir þess fundar verða auk Erlings, fulltrúar úr heilbrigðisþjónustunni og barnavernd.

Jafnframt hefur verið ákveðið að bjóða foreldrum allra barna á aldrinum 2. -10 ára upp á foreldrafærninámskeiðið SOS, sem hefur vakið mikla athygli og skilað góðum árangri í Reykjanesbæ. Tilboðið mun berast foreldrum á næstu vikum.

Eins og tilkynnt var á Forvarnarþinginu þann 21. janúar verður boðað til opins fræðslufundar um forvarnir og vímuvarnarmál í febrúarmánuði, en sá fundur verður auglýstur síðar.

Vakin er athygli á viðburðadagatalinu hér á vefnum, en þar má fylgjast með viðburðum á vegum sveitarfélagsins.