Fyrr á þessu ári samþykkti Frístunda- og menningarnefnd reglur um Menningarverðlaun í Sveitarfélaginu Vogum. Fimmtudaginn 19. apríl 2018, Sumardaginn fyrsta, voru menningarverðlaunin veitt í fyrsta skipti. Að þessu sinni voru þrír einstaklingar verðlaunaðir, auk einna félagasamtaka.
Handafar Menningarverðlauna Sveitarfélagsins Voga árið 2018 eru þessir:
Björgvin Hreinn Guðmundsson, Leirdal 14, Vogum, f. 23. jan. 1957, sonur Guðmundar Björgvins og Guðrúnar Lovísu í Vogum. Hóf nám í myndlist í Baðstofunni í Keflavík 1987, sem var saman sett af áhugafólki um myndlist hér af Suðurnesjum. Baðstofan fékk myndlistarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna, árið 2002. Lærimeistarar Hreins voru myndlistarmennirnir Jón Gunnarsson og Eiríkur Smith, báðir úr Hafnarfirði. Sat í stjórn Myndlistarfélags Suðurnesja þegar félagið fékk „Pakkhúsið“ að gjöf undir starfsemi sína frá bæjarstjórn Keflavíkur. Hreinn hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum ásamt einkasýningum hér í bæ, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og víðar. Verk eftir hann prýða veggi í Vogum, m.a. í anddyrinu í Iðndal 2.
Hanna Helgadóttir. Var formaður Fjólu í 14 ár og félagið blómstraði í hennar höndum, m.a. gengu margar ungar konur í félagið. Var einnig formaður ungmennafélagsins Þróttar í þrjú ár á sínum yngri árum. Lék oft á sínum yngri árum í leikritum og leikþáttum, bæði á samkomum Þróttar og Fjólu.
Hrafnhildur Valgarðsdóttir, rithöfundur og útgefandi. Gefur út eigið efni á útgáfunni Krass ehf heima hjá sér í Álfagerði. Hrafnhildur hefur samið 12 bækur, þ.e. 5 unglilngabækur, 4 barnabækur, 2 smásagnabækur, eina skáldsögu og eina ævisögu. Fyrir fyrstu unglingabókina, Leðurjakkar og spariskór, hlaut Hrafnhildur fyrstu verðlaun í samkeppni IOGT. Hinar unglingabækurnar urðu einnig vinsælar : Púsluspil 1988, Unglingar í frumskógi 1989, Dýrið gengur laust 1990, og Í heimavist 1991. Barnabækurnar Olnbogabörn, Kóngar í ríki sínu o.fl. hafa m.a. verið notaðar við kennslu ásamt verkefnabókum sem Hrafnhildur hefur einnig gefið úr. Hrafnhildur hefur samið, gefið út og framleitt 23 hefti af Krass, sem er smárit með frumsömdum krossgátum, þrautum, rugli og skopi, m.a. seld á bensínstöðvum. Hún fékk fyrstu verðalun fyrir smásöguna Jólagjöf heilagrar Maríu í keppni sem kennd er við Jean Monnet á Ítalíu 1996. Hún er kennari og vann lengi sem slíkur, einnig skólastjóri, og vann um tíma við ritstjórn og prófarkalestur hjá Frjálsu framtaki. Árið 2013 gaf hún út skáldsöguna Söngur Súlu.
Kvenfélagið Fjóla.
Kvenfélagið Fjóla var stofnað þann 5. júlí árið 1925 af 11 konum. Þetta voru þær Anna Guðmundsdóttir Hábæ, Guðríður Andrésdóttir Landakoti, Guðrún Egilsdóttir Austurkoti, Guðlaug Pétursdóttir Nýjabæ, Aðalbjörg Ingimundardóttir Minni Vogum, Vilhelmína Þorsteinsdóttir Minni Vatnsleysu, Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða, Kristín Jónsdóttir Minni Vogum, Guðný Jónasdóttir Naustarkoti, Sólveig Jónasdóttir Suðurkoti og Þuríður Halldórsdóttir Halakoti. Markaði fyrsta stjórnin stefnu félagsins og hefur þeirri stefnu verið reynt að halda síðan þá.
Fyrstu 20 árin voru félagsgjöldin 4 kr. Ýmis mannúðarmál og efling heimilisiðnaðar var ofarlega í huga félagskvenna fyrstu árin. Á meðan sjúkratryggingar og almennar tryggingar voru ekki fyrir hendi, safnaði félagið oft fé til að hjálpa fólki bæði til að komast á sjúkrahús og eins heima fyrir þar sem erfiðleikar voru. Fyrsta veturinn sem félagið starfaði, 1926, sá það um matreiðslunámskeið og var það fyrst sinnar tegundar á Suðurnesjum. Námskeiðið var haldið á Stóru-Vatnsleysu og stóð það yfir í 6 vikur og var Sigurborg Kristjánsdóttir umsjónarmaður námskeiðsins, siðar forstöðukona á Staðarfelli. Allar ógiftar stúlkur eldri en 16 ára sóttu námskeiðið og voru þær 12 að tölu, námskeið þetta þótti hinn mesti fengur.
Helstu fjáraflanir á þessum tíma voru hlutaveltur og oftast dansleikur í framhaldi af því. Jólabasarinn var alltaf glæsilegur, þar voru allskyns vörur sem konur gerðu t.d. vettlingar, sokkar, jólaföndur og margt fleira. Félagið byggði samkomuhúsið Kirkjuhvol ásamt Ungmennafélaginu Þrótti árið 1932 og var starfsemi félagsins þar. Seinna eignuðust svo félögin hlut í Glaðheimum ásamt sveitarfélaginu. Árið 1978 sendi hreppsnefnd, Vatnsleysustrandarhrepps, kvenfélaginu bréf þess efnis að óska eftir samstarfi um rekstur dagheimilis að Sólvöllum, tóku þær jákvætt í málið og var kosin nefnd sem skipuðu: Anna Ingólfsdóttir, Inga Hannesdóttir, Guðný Snæland, Hulda Kristinsdóttir og til vara Hallveig Árnadóttir. Lagði félagið fé til heimilisins eftir efnum og ástæðum hverju sinni.
Árið 1968 gáfu hjónin Egill Sæmundsson og Sigríður Jakobsdóttir frá Minni-Vogum kvenfélaginu Aragerði að gjöf og var það ætlað fyrir skrúðgarð. Egill Hallgrímsson frá Austurkoti stofnaði sjóð með 50.000 kr. en kvenfélagið sá um að halda garðinum við í mörg ár en nú sér sveitarfélagið um það og hefur gert hann að glæsilegum skrúðgarði, en kvenfélagið á hann samt sem áður.
Kvenfélagið Fjóla er eitt af stofnfélögum kvenfélagssambands Gullbringu og kjósasýslu, KSGK, og hefur alltaf átt konu í stjórn þess félags. Stjórnarskipti í kvenfélaginu Fjólu voru og eru fátíð, sérstaklega formannsskipti. Fyrsti formaður var Anna Guðmundsdóttir frá Hábæ, hún sat í 1 ár, Guðríður Andrésdóttir Landakoti í 34 ár, Margrét Jóhannsdóttir, Neðri Brunnastöðum í 20 ár, Hallveig Árnadóttir í 10 ár, Hrefna Kristjánsdóttir í 12 ár, Kristín Árnadóttir í 1 ár, Hanna Helgadóttir í 14 ár og svo núverandi formaður, Rósa Sigurjónsdóttir í 1 ár.
Starfið hefur snúist um fjáröflun til þess að mæta kostnaði af fræðslu, menninga og líknarmálum í okkar sveitarfélagi. Fjár hefur verið aflað með ýmsu móti, t.d. með kökubasar, blómasölu, erfidrykkju, þorrablóti, konukvöldum og kaffisölu. Einnig höfum við tekið að okkur að þrífa gistiheimilið Knarrarnes á Vatnsleysuströnd.
Vetrarstarfið hefst með opnu húsi fyrir eldri borgara á Suðurnesjum. Þar seljum við kaffi og fínar kökur, allur ágóði rennur til Álfagerðis heimili eldri borgara í sveitarfélaginu. Höfum við t.d. gefið þeim kaffivél, allan borðbúnað og leirbrennsluofn.
Við gefum leikskólanum peningagjöf um hver jól til bókakaupa, gefum útskriftargjafir í Stóru-Vogaskóla fyrir góðan árangur í textíl og handmennt. Við gáfum skólanum einnig þráðlausa höfuðmíkrafóna ekki fyrir svo löngu. Björgunarsveitinni höfum við gefið talstöðvar. Einnig hefur félagsmiðstöðin og íþróttahúsið fengið ýmsar gjafir. Einnig styrkjum við fjölskyldur sem eiga erfitt.
Frá árinu 2004 hefur kvenfélagið styrkt ýmis góð málefni og við grófa samantekt nær þetta hátt í 6 milljónum. Eins og kemur fram hér að ofan höfum við verið duglegar að styrkja stofnanir og félagasamtök hér í Vogunum. Við reynum líka að styrkja góð málefni út fyrir Vogana. Sem dæmi má nefna fjölskylduhjálp, fæðingardeildina í Keflavík, Heilavernd og Evrópu Unga fólksins, svo eitthvað sé nefnt.
Félagið hefur frá fyrstu tíð hugsað til Kálfatjarnarkirkju, fyrsta árið 1926 gaf félagið 300 kr til kaupa á fyrsta ofni til upphitunar í kirkjunni, síðan gaf félagið hökul, 25 kirtla fyrir kórinn og ryksugu, á 100 ára afmæli kirkjunnar voru gefnar 200.000 kr til byggingar safnaðarheimilis og reka til moldunnar. Árið 2001 voru gefnar 200.000 kr til kaupa á stólum í nýtt þjónustuhús. Árið 2004 heklaði Elsa Sigrún Böðvarsdóttir altarisdúk fyrir kvenfélagið og fór hún eftir gamla dúknum, einnig gáfum við hljóðkerfið og gáfum kirkjukórnum 200.000 kr í afmælisgjöf þegar hann var 60 ára en þau fóru erlendis það ár og að síðustu skjávarpa sem er í þjónustuhúsi og ýmsar aðrar gjafir.
Við erum með jólafund í byrjun desember og bjóðum til okkar eldri borgurum í sveitarfélaginu. Þar spilum við félagsvist, lesum jólasögu, syngjum saman jólalög borðum fínar kræsingar, drekkum heitt súkkulaði og að lokum fá allir jólapakka. Þetta er mjög notaleg stund. Kvenfélagið heldur jólaball ásamt Lions, björgunarsveitinni, foreldrafélagi leikskólans og sveitarfélaginu og er öllum börnum boðið frítt.
Þorrablótin eru ávallt mjög vinsæl og einnig höldum við konukvöld. Við tökum að okkur fermingarveislur og ýmsa aðra viðburði. Á sumrin höfum við tekið okkur frí frá félagsstörum en tökum þátt í fjölskyldudögunum sem haldnir er í ágúst. Við höfum tekið þátt í ýmsum verkefnum á vegum KSGK. t.d. sölu á merkjum sem voru til styrktar Barnaspítala Hringsins og einnig BUGL..
Mikil vinna liggur að baki allra þessa fjáraflana en konur ganga í kvenfélag til að láta gott af sér leiða og einnig til að hafa gaman, því það er alltaf gaman að vera saman.
Árið 1990 var stofnaður ferðasjóður. Hrefna Kristjánsdóttir og Gísla Vigfúsdóttur gáfu 5000 kr í þann sjóð og nú átti að fara erlendis. Þá var allt sett á fullt að afla peninga í ferðasjóðinn. Fyrsta ferð var til Edinborgar haustið 1995 og var það vikuferð, sem tókst mjög vel, eins og allar þær ferðir sem við höfum farið í og eru þær orðnar 7 talsins. Þessar ferðir þjappa konum saman og eru ánægjulegar. Einnig höfum við farið í óvissuferðir innanlands.
Kvenfélögin í landinu eru flest öll í mikilli sókn og er kvenfélagið Fjóla orðið fimmta stærsta kvenfélagið innan KSGK, en í því sambandi eru 10 félög.