Matjurtanámskeið

Undanfarin ár hefur sveitarfélagið boðið upp á aðstöðu til matjurtaræktunar í samstarfi við eldri borgara og landeigendur í Vogum. Stefnt er að sama fyrirkomulagi næsta sumar. Veturinn er góður tími til undirbúnings fyrir sumarverkin og verður haldið námskeið á vegum tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn um matjurtaræktun.

Um er að ræða tvö tveggja kvölda námskeið sem verða haldin í Gerðubergi í Reykjavík,
hið fyrra þriðjudagskvöldin 17. og 24. febrúar
og hið síðara miðvikudagskvöldin 4. og 11. mars.
Námskeiðin standa yfir frá kl. 19:00 - 21:30 hvort kvöld og kosta kr. 12:500.

Skráning hér, eða í síma 578 4800
Á námskeiðinu er fjallað um sáningu, ræktun og umönnun í ræktun matjurta. Greint er frá hefðbundnum og óhefðbundnum ræktunaraðferðum, jarðvegi og áburðargjöf, sýndar mismunandi gerðir ræktunarbeða, karma og skjólgjafa. Saga matjurtaræktar á Íslandi reifuð, skýrt frá uppruna tegundanna sem teknar eru til umfjöllunar, eðliseinkennum um 40 tegunda og yrkja ásamt því að fjalla lítillega um hollustu og lækningamátt matjurta. Farið er yfir sjúkdóma og skordýr sem hrjá matjurtir og um notkun eiturefna og lífrænna lausna gegn vágestum og sjúkdómum og lýst nokkrum aðferðum við geymslu og matreiðslu.
Kennarar eru garðyrkjufræðingarnir Auður I Ottesen og Jón Guðmundsson. Þau búa yfir margra ára reynslu í ræktun matjurta og hafa fylgst vel með nýjungum og möguleikum sem grænmetisrækt býður upp á hér á landi. Þau eru bæði garðyrkjufræðingar. Auður og Jón eru höfundar bókarinnar Matjurtir sem er fjórða bókin í ritröðinni Við ræktum, útgefin 2008. Í bókinni er fjallað um 40 tegundir matjurta sem ræktaðar eru utanhúss hér á landi, bæði vel kunnar grænmetistegundir og lítt reyndar sem spennandi er að spreyta sig á. Eins um alla þá þætti sem snúa að matjurtarækt við Íslenskar aðstæður auk sögulegs ágrips, uppskriftir og ótal góð ráð sem gagnast þeim sem bæði eru að byrja í matjurtarækt og þá sem eru lengra komnir.