Málið okkar - verkefni um málþroska o.fl.

Heilsuleikskólinn Suðurvellir í Vogum tekur nú þátt í verkefni í samvinnu við Fræðsluþjónustu Suðurnesjabæjar ásamt leikskólum í Suðurnesjabæ og Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðing.

Markmið verkefnisins er að auka áherslur á málþroska, orðaforða og hljóðkerfisvitund í skólastarfinu.

Bryndís hefur unnið að því að setja upp ítarleg markmið fyrir verkefnið bæði út frá eigin reynslu og grunnlínumælingum sem gerðar voru í leikskólunum núna í vor.

Verkefnið er tilraunaverkefni sem verður í stöðugri þróun.

Skipaður hefur verið verkefnastjóri í hverjum leikskóla sem heldur utan um verkefnið og vinnur að því að fylgja markmiðunum eftir í skólastarfinu.

Ragnhildur Hanna Finnbogadóttir er verkefnisstjóri verkefnisins fyrir hönd Heilsuleikskólans Suðurvalla. Skólastjórar leikskólans segjast binda miklar vonir við þetta verkefni ekki síst hvað varðar hið mikilvæga málefni að efla málþroska tvítyngdra barna sem getur meðal annars stuðlað að minnkun á brottfalli úr framhaldsskóla.