Sæll kæri Vogabúi.
Þessa dagana dvelst undirritaður ásamt hópi listafólks í Minni-Vogum. Er þetta hluti af verkefninu Díónýsíu, sem fer nú fram í annað sinn. Verkefnið gengur út á að gefa hópi listafólks frá öllum heimshornum tækifæri til að hittast í litlum þorpi/bæ á Íslandi og vinna saman en jafnframt vinna í samvinnu við bæjarbúa. Verkefnið brýtur þannig niður múra á milli ólíkra listgreina, landa og færir það sem oft vill verða niðurnjörvað við 101 Reykjavík út fyrir borgina. Staðirnir sem nú taka þátt auk Voga eru Dalvík, Borgarfjörður eystri og Hofsós.
Sjálfur fæst ég einkum við ritstörf og langar mig því til að safna efni frá ykkur bæjarbúum og gefa út eins konar menningartímarit Voga áður en verkefninu lýkur. Ég hef einkum áhuga á hvers kyns textum (enda auðveldastir í prentun) og kemur þá hvað sem er til greina: ljóð, sögur, greinar, vangaveltur, ritgerðir eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug. Ef einhver lumar á góðri sögu fyrir mig, sem er geymd í kollinum, til að skrá niður, hvort sem það er gömul þjóðsaga eða góð saga af síðasta þorrablóti, þá hefði ég einnig áhuga á að fá slíka sögustund. Einnig verða í blaðinu viðtöl við flesta listamennina sem hér dveljast.
Efnið má senda á netfangið gvanndalo@gmail.com, stinga inn um bréfalúguna á Minni Vogum merkt mér og einnig er hægt að ná í mig í síma 823-2449. Blaðinu verður svo vonandi dreift í eins konar lokahófi á fimmtudagskvöldið (nk.), sem verður nánar auglýst síðar. Tíminn er því knappur og megið þið endilega láta orðið berast sem víðast, t.d. með því að framsenda á aðra Vogabúa (þessi póstur er sendur á alla starfsmenn bæjarins og síðar í dag mun ég reyna að fara með dreifimiða í öll húsin). Ef þið vitið um einhvern sem lumar á góðu efni í skúffunum er ekki verra ef þið ýtið á eftir viðkomandi eða sendið mig á staðinn:)
Með bestu kveðju og von um góðar viðtökur,
Gísli Hvanndal
PS:
Ekki hika við að spyrja ef þið hafið einhverjar frekari spurningar um þetta eða verkefnið í heild.