Liðsstyrkur til körfuknattleiksliðs Þróttar

Bakvörðurinn Hjörtur Harðarson er genginn til liðs við Þróttara í 1. deild karla í körfuknattleik. Hjörtur mun því leika með Þrótti það sem af lifir þessari leiktíð en kemur til Þróttar frá Grindavík.

Hjörtur er reynslumikill bakvörður og spilaði lengst af með Keflavík, en hefur að undanförnu leikið með Grindvíkingum og mun eflaust reynast Þrótturum mikill styrkur í baráttunni.   Daníel Guðmundsson gekk nýverið í raðir úrvalsdeildarliðs Njarðvíkinga frá Þrótti, en Daníel var fyrsti leikstjórnandi hjá Þrótti.

Þróttarar eru í fallbaráttu í 1. deildinni, en hafa unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum og stefna á að tryggja sig í sessi. Þróttarar leika næst gegn Haukum á föstudagskvöld í íþróttahúsinu í Vogum kl. 20:00. Hjörtur verður orðinn löglegur í liði Þróttar á föstudagskvöld og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna og styðja sitt lið.

Á vef Körfuknattleikssambands Íslands má sjá tölfræði um Hjört.
Hjörtur Harðarson