Útskriftarnemendur í Heilsuleikskólanum Suðurvöllum komu í heimsókn á bæjarskrifstofurnar miðvikudaginn 23. janúar síðastliðinn. Á vormisseri heimsækja krakkarnir ýmsar stofnanir sveitarfélagsins með það að markmiði að undirbúa þau fyrir að hefja grunnskólagöngu næsta haust.
Á fundi með bæjarstjóra fræddust þau um sveitarfélagið okkar. Meðal annars var rætt um merkið okkar og skoðaðar myndir frá bænum, ströndinni og fjöllunum. Krakkarnir voru mjög áhugasamir um sveitarfélagið sitt og lýstu öll yfir áhuga á að ganga á Keili í sumar með foreldrum sínum. Kraftmiklir krakkar með góðan grunn úr heilsuleikskólanum !
Krakkarnir lýstu áhyggjum sínum af umferðarhraða í bænum og vildu uppræta sóðaskap. Bæjarstjóri lofaði að verða við óskum þeirra um að hvetja fólk til að hugsa betur um bæinn og reyna að draga úr umferðarhraða. Hins vegar sögðu þau að það besta við bæinn sé hve hann sé lítill og stutt að heimsækja vini.