Leikjanámskeið í Félagsmiðstöðinni

Leikjanámskeið fyrir börn fædd 2000 til 2003 verða í Félagsmiðstöðinni Borunni í ágúst. Um er ræða tvö viku námskeið, það fyrra 10.-14. ágúst og það síðara 17.-21. ágúst. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá verður í boði. Námskeiðin standa frá kl 09:00 til 16:00. Skráning er hafin í félagsmiðstöðinni þar sem síminn er 440-6224.

Markmið leikjanámskeiðanna er að börnin kynnist sem flestum útileikjum, verði virkir þátttakendur í þeim og hafi gaman af. Börnin skulu ávallt vera klædd eftir veðri. Verum minnug þess að skjótt skipast veður í lofti.

Nesti, klæðnaður og dagskrá
Börnin þurfa að koma með nesti til að narta í um miðjan morgun og miðjan dag. Hægt er að kaupa léttan hádegisverð fyrir börnin í hádeginu. Starfsfólk leggur mikið upp úr því að nesti barnanna sé hollt og gott. Starfsfólk vinnur að skipulagningu leikja með börnunum. Farið verður í gönguferðir, kynnisferðir, fræðsluferðir, sundferðir og margt fleira. Ef illa viðrar gæti þurft að breyta fyrirfram ákveðinni dagskrá og þá yrðu börnin inni við skemmtileg verkefni.

Verð og skráning
Skráning og greiðsla fer fram í Félagsmiðstöðinni alla virka daga kl. 10:00-15:00. Vikunámskeið kostar kr. 5.000,- og vikugjald fyrir hádegismat er kr. 600,-. Greiða þarf námskeiðsgjöld við skráningu. Athygli er vakin á því að takmarkað pláss er á námskeiðunum. Frekari upplýsingar fást í Félagsmiðstöðinni í síma 440-6224.

Frístunda- og menningarnefnd