Leikjanámskeiðin í sumar voru afskaplega vel sótt. Mörg barnanna sóttu fleiri en eitt námskeið.
Farið var í marga skemmtilega leiki nýja sem gamla. Föndur varð strax vinsælt og var boðið upp á listræna daga í hverri viku þar sem gerðar voru
grímur, pappírshundar, bækur og fleira.
Miðvikudagar fengu nafnið kósídagar því þá var bakað eitthvað gott og leikið saman inni sem úti.
Föstudagarnir voru spennandi! Þá var farið í óvissuferðir og margt skemmtilegt brallað.
Á leikjanámskeiðunum voru einnig kenndar ýmsar íþróttagreinar.
Þar má nefna golf, fótbolta, handbolta, körfubolta, blak, íshokkí og hástökk sem fljótt varð vinsælt. Einnig var farið yfir hlaupagreinar s.s. spretthlaup og grindahlaup, enda nýtist sú tækni vel í öðrum íþróttagreinum. Á golfvellinum fengu krakkarnir afbragðs móttökur frá starfsmönnum golfklúbbsins.
Börnin fengu í byrjun sumars matjurtagarða til grænmetisræktunar. Settar voru niður kartöflur ásamt grænmeti og þótti mikið fjör að koma við í hverri viku til að vökva og hirða garðana.
Fimmtudaginn 22. ágúst var öllum börnunum sem sóttu námskeið boðið til uppskeruhátíðar. Tekið var upp grænmeti, grillað og haft gaman saman. Eftir matinn biðu 2 hoppukastalar ásamt candiflossvél!
Seinna um kvöldið var svo farið með rútu í Laugarásbíó á frumsýningu myndarinnar Aulinn ég 2.
Krakkarnir úr 10. bekk voru með í bíóferðinni og gekk allt eins og í sögu, enda ekki við öðru að búast hjá svo flottum krökkum.
Kærar þakkir fyrir dásamlegt sumar!
Hildur Líf og starfsfólk leikjanámskeiða
Hér má sjá myndir frá uppskeruhátíðinni