Leiðrétting vegna fréttar RÚV

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins, sunnudaginn 16. september, er sagt frá því að Sveitarfélagið Vogar hafi hafnað háspennulínum í sveitarfélaginu. Aðrir fjölmiðlar hafa haft þessa frétt eftir RÚV.

Laugardaginn 15. september er jafnframt haft eftir framkvæmdastjóra Landverndar að samtökin fagni ákvörðunum þriggja sveitarfélaga á Suðurnesjum um að hafna háspennulínum vegna fyrirhugaðs álvers. Í fullyrðingunni liggur að Sveitarfélagið Vogar sé eitt þessara sveitarfélaga og að fyrirhugaðar háspennulínulagnir séu fyrst og fremst vegna álvers í Helguvík.

Hið rétta er að bæjarráð Sveitarfélagsins Voga fjallaði um málið á fundi sínum þann 24. júlí síðastliðinn og var það afgreitt á eftirfarandi hátt.

Bæjarráð getur ekki tekið afstöðu til erindisins þar sem allur samanburður valkosta miðast eingöngu við lagningu loftlína en ekki jarðstrengja líkt og fulltrúar sveitarfélagsins óskuðu eftir á fundi með Landsneti þann 8. júní síðastliðinn. 

Bæjarráði Sveitarfélagsins Voga þykir rétt að halda því til haga að sveitarfélagið hefur ekki afgreitt umsögnina og mun ekki gera það fyrr en fullnægjandi gögn liggja fyrir. Þau gögn eru nú í vinnslu og standa vonir til þess að þau berist innan tíðar.

f.h. bæjarráðs

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri