Leggjum áherslu á að halda iðkendum virkum og mikilvægt að standa saman.
Þróttur þarf að fella niður 30 til 35 skipulagðar æfingar í hverri viku og það hefur áhrif á um 200 iðkendur í skipulögðu starfi félagsins. Þetta hefur mikil áhrif á iðkendur, þjálfara, foreldra og aðra hjá Þrótti. Hlutverk félagsins er að halda iðkendum við efnið og hlúa að þeim á meðan þetta ástand varir.
Stjórnendur og þjálfarar Þróttar eru í sömu sporum og öll önnur íþróttafélög í landinu en allt íþróttastarf hefur legið niðri síðan samkomubann tók gildi.
Þróttur leggur áherslu á mikilvægi þess að félagið sýni samfélagslega ábyrgð, fylgi tilmælum heilbrigðisyfirvalda og leggi sitt af mörkum til að sporna við útbreiðslu veirunnar.
Í þessu ástandi er það áskorun fyrir Þrótt og önnur íþróttafélög að halda uppi skipulögðu starfi með öðrum hætti þó æfingar falli niður. Hefur stjórn félagsins unnið að verklýsingu þar sem settar eru kröfur á alla þjálfara að senda iðkendum sínum heimaæfingar og aðstoða þá af bestu getu ef eitthvað er. Við erum að gera okkar besta í þessari stöðu til að halda úti æfingum og okkar iðkendum virkum. Langar mig að hrósa foreldrum fyrir að taka virkan þátt í þessu með okkur og hvetja börnin til þess að gera æfingar heima. Það er mikilvægt að halda í alla þá rútínu sem við getum og það er til dæmis hægt með að stunda reglulega, skipulagða hreyfingu.
Á meðan þetta ástand varir hefur tíminn verið nýttur til að horfa til framtíðar þannig að hægt sé að koma starfi aftur í eðlilegt horf um leið og hægt er. En þangað til verðum við að horfa á jákvæðu hliðarnar og njóta aukna samverustunda með fjölskyldunni, hreyfa okkur og hafa gaman.
Eins og flestir í samfélaginu þá tökum við hjá Þrótti reglulega stöðuna og högum starfsemi í samræmi við nýjustu ráðleggingar stjórnvalda. Viljum við biðja alla um að halda áfram að sína okkur og stöðunni skilning en við erum öll í sama liði og okkar lið er að standa sig glæsilega.
Áfram Þróttur!!
Kveðja, Petra R. Rúnarsdóttir formaður Ungmennafélagsins Þróttar frá Vogum.