Landsganga- Frá Fonti að Reykjanestá

Gengið til styrktar Þrótti
Þann 6. júlí hefja þeir Hilmar Egill Sveinbjörnsson og Gunnar Júlíus Helgason göngu þvert yfir Ísland frá Fonti á Langanesi út á Reykjanestá. Ganga þeir félaga er til styrktar Ungmennafélaginu Þrótti hér í Vogum en stjórn og iðkendur hjá Þrótti munu safna áheitum meðal einstaklinga og fyrirtækja.

Þriggja vikna þrekraun
Áætlað er að gangan taki þrjár vikur en alls verða gengnir 550 km, að mestu yfir hálendi Íslands. Ráðgera þeir Hilmar og Gunnar að ganga um 25-30 km á dag og er ætlunin að bera allar vistir þessa leið. Helstu farartálmar á leiðinni eru jökulárnar og gæti Þjórsárkvísl sem rennur úr Þjórsárjökli reynst erfið og búast þeir félagar allt eins við að þurfa að fara yfir skriðjökla ofan Þjórsárvera í Hofsjökli.

Safnað fyrir uppbyggingu íþróttasvæðis
Eins og áður sagði er gangan farin til styrktar Þrótti og mun söfnunarfé renna til uppbyggingar á íþróttaaðstöðu í Vogum. Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið eru hvattir til að hafa samband við framkvæmdastjóra Þróttar með tölvupósti á throttur@throttur.net
Einnig eru íbúar í Vogum hvattir til að taka vel á móti Þrótturum þegar áheitum verður safnað á meðal íbúa.

Ráðgert er að Þróttarar og aðrir íbúar Voga eigi kost á að ganga með þeim Hilmari og Gunnari síðasta spölinn er þeir koma á Reykjanesið. Mun gangan verða auglýst nánar síðar.

Á efri myndinni má sjá leiðina sem þeir Hilmar og Gunnar ætla að ganga.

Á neðri myndinni eru göngugarparnir ásamt börnum sínum. Talið frá vinstri til hægri Arnar Egill Hilmarsson, Hilmar Egill Sveinbjörnsson, Gunnar Helgason og Júlía Halldóra Gunnarsdóttir.