Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2008 var samþykkt ný gjaldskrá, ásamt álagningu skatta. Útsvarsprósentan verður óbreytt, eða 13,03%.
Ein stærsta breytingin er að álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði lækkar um 7%. Álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkar þannig úr 0,3% af fasteignamati í 0,28%. Álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,5% af fasteignamati í 1,4%. Jafnframt eru tekjuviðmið afsláttar fasteignagjalda til eldri borgara og öryrkja hækkuð um 15%.
Álagningarhlutfall fasteignaskatta í Sveitarfélaginu Vogum verður það lægsta á Suðurnesjum. Markmið lækkunarinnar er að gera Sveitarfélagið Voga að enn álitlegri búsetukosti og laða að fleiri fyrirtæki og þar með atvinnutækifæri fyrir íbúana.
Ekki eru fyrirhugaðar miklar breytingar á þjónustugjaldskrá. Skólamáltíðir í Stóru- Vogaskóla verða áfram gjaldfrjálsar og leikskólagjöld hækka ekki, annað árið í röð. Leikskólagjöld eru þannig að lækka að raunvirði. Áfram verður frítt fyrir börn í sund.
Niðurgreiðslur vegna þjónustu dagforeldra hækka um 20%, en niðurgreiðslurnar voru hækkaðar um 100% um síðustu áramót. Markmiðið að gera dagmæðraþjónustu að raunhæfum valkosti við leikskóla og koma til móts við foreldra ungra barna. Ungum börnum í sveitarfélaginu hefur fjölgað töluvert á árinu.
Aðrar breytingar eru eftirfarandi.• Almennt hækka gjaldskrár um 5% eða minna.
• Sorphirðu- og sorpeyðingargjöld hækka um 9% vegna hækkandi rekstrarkostnaðar Kölku og verðlagshækkana sorphirðu. Hækkunin er samræmd yfir þau sveitarfélög sem standa að Kölku.
• Gjaldskrá frístundaskóla hækkar um 25%, m.a. vegna bættrar þjónustu í nýju húsnæði.
• Gjaldskrá leikja- og sumarnámskeiða hækkar um 35%, miðað er við að gjöldin standi straum af rekstrarkostnaði, en sveitarfélagið greiði laun. Gjaldið er sambærilegt við Reykjavík.
• Niðurgreiðslur til dagmæðra hækka um 20%, en um síðustu áramót hækkuðu þær um 100%. Markmið að gera dagmæðraþjónustu að raunhæfum valkosti við leikskóla, auk þess að létta þrýstingi af yngstu deild leikskólans.
• 5% staðgreiðsluafsláttur af fasteignasköttum verður veittur sé greitt fyrir 20. febrúar. Afslátturinn nær ekki yfir þjónustugjöld sem innheimt eru með fasteignasköttum.
Gjaldskráin tekur gildi 1. janúar 2008.