Kynningarfundur um ný skólalög

Sameiginleg fundaferð menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um landið til kynninga og umræðna um ný lög um skóla og menntun hefst í Reykjanesbæ þriðjudaginn 23. september. Um er að ræða tvo fundi á hverjum stað,  einn síðdegisfund fyrir stjórnsýsluna; sveitarstjórnarmenn, starfsmenn skóla- og fræðsluskrifstofa, skólanefndir og skólastjórnendur sem haldinn verður í fyrirlestrasal Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefst hann kl. 16:00. Síðari fundurinn er almennur  og opinn borgarafundur að kvöldi með menntamálaráðherra og starfsfólki menntamálaráðuneytis. Sá fundur hefst kl. 20:00 og er haldinn á Sal Fjölbrautaskólans. Gott væri ef sveitarfélögin kæmu upplýsingum um fyrirhugaða fundi inn á heimasíður sínar.

Á fyrri fundinum verður megináherslan lögð á að fjalla um þær breytingar og nýjungar sem lögin boða og hafa munu sérstök áhrif á starfshætti sveitarfélaga og starfsmanna þeirra er sinna málefnum leik- og grunnskóla fyrst og fremst. Fjallað verður um ýmsar spurningar sem vaknað hafa í upphafi skólaársins, þ.á.m. gjaldtöku vegna skólamáltíða og ferðalaga nemenda, kostnað vegna náms grunnskólanemenda í framhaldsskólum, skipan skólaráða, samrekstrarmöguleika o.fl.  Þá verður vikið að breytingum á hlutverki og skyldum skólastjórnenda og nýjum skyldum sveitarfélaga við eftirlit og mat á gæðum skólastarfs, vegna sérfræðiþjónustu o.fl . Spurt verður hvort skynsamlegt sé að setja á fót millikærustig innan sveitarfélags í ljósi kæruheimilda er tengjast ýmsum ákvæðum nýrra laga. Farið verður yfir stöðu reglugerðar- og námskrárvinnu í tengslum við lögin o.fl. Þessi álita- og umræðuefni auk þeirra annarra sem fundarmenn hafa áhuga á að bera upp verða í brennidepli á þessum fundum og gefinn verður góður tími til umræðna að loknum framsögum fulltrúa menntamálaráðuneytis og sambandsins.

Við hvetjum ykkur til þess að nýta þetta tækifæri vel til þess taka virkan þátt í fundinum og koma ykkar skoðunum á framfæri. Álit ykkar sveitarstjórnarmanna og starfsmanna og stjórnenda skóla- og fræðslumála á nýjum lögum og þeim áhrifum sem þau munu hafa á skólahaldsveitarfélaga til framtíðar er afar þýðingarmikið innlegg í áframhaldandi starf og framþróun á grundvelli laganna,  þ.á.m. í tengslum við þá reglugerðarvinnu sem nú er hafin.

Fundarstjóri verður Guðjón Guðmundsson, frkvstj. Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Seinni fundurinn verður opinn borgarafundur á vegum menntamálaráðuneytisins til kynningar á nýrri menntalöggjöf fyrir skólafólk, foreldra, nemendur og annað áhugafólk um skólamál. Það er von okkar að þið hvetjið til góðrar mætingar einnig á þá fundi og sveitarstjórnarfólk fjölmenni jafnframt til umræðna og fyrirspurna til menntamálaráðherra. Fundirnir verða haldnir milli kl 20 og 22 á hverjum stað og ný menntalöggjöf kynnt af ráðherra (eftir því sem tök eru á) og sérfræðingum menntamálaráðuneytis. Opið verður fyrir umræður að erindum loknum.

Fundarstjóri verður Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Með kærri kveðju og hvatningu til ykkar allra um góða þátttöku.

Svandís Ingimundardóttir, þróunar- og skólafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga