Á síðasta bæjarráðsfundi var samþykkt að Sveitarfélagið Vogar óskaði eftir því að verða tilraunasveitarfélag ríkisins í Græna hagkerfinu. Skrefið er eðililegt framhald af þeim áherslum á náttúruvernd og endurnýtingu sem sveitarfélagið hefur haft á síðustu árum. Nú viljum við stíga lengra og höfum samþykkt að byggja upp atvinnusvæði þar sem byggt er á hugmyndafræðinni og erum í viðræðum við nokkur fyrirtæki um að koma að því verkefni.
Græna hagkerfið byggir á nýrri hugsun í nýtingu náttúrunnar og næstkomandi mánudag stendur umhverfisráðuneytið fyrir almennum kynningarfundi á Reykjanesi um hvítbók sem felur í sér heildarúttekt á lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi.
Í hvítbókinni er m.a. fjallað um nýjar aðferðir og viðhorf í náttúruvernd og settar eru fram tillögur um
hvernig koma þeim inn í íslenska löggjöf. Lögð er áhersla á að útfæra meginregur umhverfisréttar í nýjum náttúruverndarlögum, fjallað er ítarlega um friðlýsingar og annars konar
verndaraðgerðir hér á landi, vatn, almannarétt og svo mætti lengi telja.
Fundurinn verður haldinn mánudaginn 28. nóvember kl. 17 - 18:30 á Flughótelinu í Reykjanesbæ, en þar mun Sigurður Ármann Þráinsson, líffræðingur í umhverfisráðuneytinu, kynna
efni hvítbókarinnar og svara spurningum.
Við hvetjum alla sem áhuga hafa á umhverfisvernd að mæta á fundinn og sérstaklega eru forstöðumenn stofnanna og fyrirtækja í Sveitarfélagi hvattir til að kynna sér efnið sem nýta mætti til enn frekari stefnumótunar í samfélaginu þar sem heildbrigð notkun og nýting umhverfis er grunnstefið.
Þeir sem ekki komast á fundinn geta kynnt sér málið á vefslóðinni
www.umhverfisraduneyti.is/hvitbok