Alþjóðlegi klósettdagurinn er 19. nóvember
Eru ekki allir orðnir langþreyttir á bilunum og stíflum í fráveitukerfunum vegna úrgangs?
Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarfélög til að taka höndum saman og fræða íbúa sína um skaðsemi úrgangs í umhverfinu, í fráveitukerfum og þann kostnað sem sveitarfélögin þurfa að bera á hverju ári vegna hans.
Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni frítt fyrir alla sem vilja boða með okkur einfaldan boðskap. Með jákvæðum og einföldum skilaboðum hvetjum við alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.
Á vefsíðunni www.klosettvinir.is finnið þið efni sem þið getið notað á vefsíður ykkar, gert frétt með myndefni, deilt myndböndum á samfélagsmiðlum, hlustað á lag á Spotify, hengt upp veggspjöld í sundlauginni og íþróttahúsinu. Allt sem þarf til að fræða fólk um að bara piss, kúkur og klósettpappír eiga heima í klósettinu!
Fimmtudagurinn 19. nóvember er Alþjóðlegi klósettdagurinn og þá er upplagt að minna fólk á hvað má fara í klósettið.
Með samtakamætti höfum við tækifæri til að breyta hegðun fólks til langs tíma. Grípum tækifærið og verum með!
Við biðjum alla að leggja þessu mikilvæga málefni lið og deila þessu skemmtilega kynningarefni á sínum miðlum á Alþjóðlega klósettdeginum, 19. nóvember!
Nánari upplýsingar veitir Eygerður Margrétardóttir, eygerdur@samband.is