Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Suðurnesjum fer fram helgina 30. september til 2. október næstkomandi í húsnæði Keilis á Ásbrú. Viðburðurinn er sá fyrsti af sex viðburðum sem haldnir verða víðsvegar um landið næstu mánuðina í þeim tilgangi að virkja fólk til athafna og láta góðar hugmyndir verða að veruleika. Viðburðurinn er fyrir alla þá sem þyrstir í að skapa og framkvæma hvort sem þeir eru með viðskiptahugmynd eða ekki. Á viðburðinum fá þátttakendur tækifæri til þess að vinna að frumgerð vöru eða þjónustu undir leiðsögn sérfróðra aðila. Einnig munu reyndir fyrirlesarar miðla þekkingu sinni varðandi framgöngu hugmynda og stofnun fyrirtækja.
Atvinnu- og nýsköpunarhelgin er samstarfsverkefni Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs og sveitarfélaga landsins. Landsbankinn veitir verkefninu stuðning og eru viðburðirnir haldnir í nánu samstarfi við bankann. Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Suðurnesjum er haldin með stuðningi sveitarfélaganna á Suðurnesjum; Grindavíkurbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, sveitarfélaginu Garði og sveitarfélaginu Vogum. Einnig styðja fjölmörg fyrirtæki og samtök af Suðurnesjum við viðburðinn með styrkveitingum og matargjöfum.
Allir geta tekið þátt og það kostar ekkert.
Skráning er hafin á www.anh.is