Miðvikudaginn 3. apríl 2019 voru kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins undirritaðir í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Samningurinn er milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og félaga Starfsgreinasambandsins, LÍV og VR hins vegar. Samningurinn hefur langan gildistíma, til nóvember 2022. Samhliða undirritun kjarasamningins kynnti ríkisstjórnin ráðstafanir þær sem gripið er til af hálfu stjórnvalda, undir merkjum Lífskjarasamnings 2019 - 2022. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og framkvæmdastjóri sambandsins undirrituðu sérstaka yfirlýsingu sem innlegg sveitarstjórnarstigsins til málsins, þar sem fram kemur að sambandið muni mælast til við sveitarfélögin í landinu að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda. Einnig mun sambandið mælast til þess við sveitarfélögin að á árinu 2020 muni gjöld á þeirra vegum hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri.
Hvað Sveitarfélagið Voga varðar, þá er gjaldskrá afgreidd í tengslum við samþykkt fjárhagsáætlunar, sem var samþykkt í desember s.l. Ekki eru nein áform uppi um að breyta gjaldskránni í ár. Sú vinnuregla hefur verið viðhöfð að horfa til almennrar verðlagsþróunar þegar ný gjaldskrá er ákvörðuð. Bæjarstjórn mun því án efa taka mið af þeirri hvatningu sem fram kemur í yfirlýsingu sambandsins þegar kemur að ákvörðun gjaldskrár fyrir næsta ár.
Gera má ráð fyrir að í kjölfar nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði komist skriður á samningaviðræður sambandsins og fulltrúa starfsmanna sveitarfélaganna um gerð nýs kjarasamnings, sem væntanlega verður á áþekkum nótum og samningur sá sem nú hefur verið undirritaður og gildir fyrir almenna vinnumarkaðinn.