Laugardagskvöldið 20. júní býður Bláa Lónið og Grindavíkurbær upp á hina árlegu Jónsmessugöngu á fjallið Þorbjörn. Gangan hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár en hér er um að ræða skemmtilega afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Lagt verður af stað gangandi frá sundlaug Grindavíkur kl. 20:30 og er áætlað að ferðin taki um þrjár klukkustundir. Hópstjóri verður með í för. Allir eru á eigin ábyrgð.
Eyjólfur Kristjánsson mun skemmta með söng og spili við varðeld á fjallinu og einnig í Bláa lóninu þar sem gangan endar. Jafnframt verður dregið úr réttum lausnum í söguratleik Grindavíkur ´09 sjá ratleikskort bls. 12 - 13 í dagskrá Sjóarans síkáta á www.grindavik.is
Vinsamlegast athugið að gangan er 20. júní kl. 20:30 ekki 21. júní kl. 20 eins og misritaðist í viðburða- og menningardagskrá Saltfisksetursins og Grindavíkur ´09.
Enginn þátttökukostnaður er í gönguna en þátttakendur greiða aðgang í Bláa lónið, sjá upplýsingar um verð og þjónustu á www.bluelagoon.is
Kynnisferðir verða með sætaferðir til Grindavíkur frá BSÍ klukkan 19:30 og SBK frá Reykjanesbæ kl. 20:00. Sætaferðir frá Bláa lóninu verða til Grindavíkur kl. 00:30 og Reykjanesbæjar og Reykjavíkur kl. 01:00.