Jólin kvödd með gleði og söng í blíðskaparveðri

Veðrið lék við Vogabúa laugardaginn 6. janúar þegar jólin voru kvödd á árlegri þrettándagleði í Vogunum.

Krakkar fengu andlitsmálningu í félagsmiðstöðinni áður en kyndlum og stjörnuljósum var úthlutað. Því næst leiddu álfakóngur og drottning kyndlagöngu frá félagsmiðstöðinni að minnismerkinu fyrir neðan Stóru-Vogaskóla. Þar tóku Lionsmenn í Keili á móti fólki með þrettándabrennu.  
Að lokinni brennu var haldið í Tjarnarsal þar sem hressir nemendur í Stóru-Vogaskóla héldu uppi fjörinu ásamt kóngi og drottningu. Þar var sungið, dansað og hlegið og voru margir krakkar í fallegum og skrautlegum búningum.
Í lok hátíðarhaldanna voru öll börn leyst út með lítilli gjöf frá sveitarfélaginu.
Sannarlega skemmtileg þrettándagleði í Vogunum.