Jólin kvödd með gleði og söng

Það var gleði í loftinu þegar jólin voru kvödd á þrettándagleði í Vogunum. Púkar og furðuverur voru á sveimi þar sem fólk kom saman á síðasta degi jólahátíðarinnar. 

Farin var blysför frá Félagsmiðstöðinni í gegnum bæinn og að minnismerkinu fyrir neðan Stóru-Vogaskóla. Þar tóku Lionsmenn í Keili á móti fólki með brennu og Þorvaldur Örn ásamt fleirum sá um að áramótalögin hljómuðu á meðal fólks. 

Þegar fór að draga úr bálinu hjá Keilismönnum hófst glæsileg flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Skyggnis. Er það mál manna að sýningin hafi með þeim tignarlegustu sést hafa á Suðurnesjum og þó víðar væri leitað. 

Að lokinni flugeldasýningunni var haldið inn í Tjarnarsal þar sem var dansað við undirleik Hermanns Inga. Þar sá dómnefnd sem var stýrt af kvenfélagskonum í Fjólu um að velja skemmtulegustu búningana. Voru það hjónin Helgi Guðmundsson og Júlía Halldóra Gunnarsdóttir sem voru í gervi mörgæsar og forseta lýðveldisins  og Hafrún Freyja Hrafnkellsdóttir postulínsdúkka sem fengu glaðninga fyrir skemmtileg þrettándagervi. Í lok hátíðarhaldanna voru öll börn yngri en 12 ára leyst út með lítilli gjöf frá sveitarfélaginu. Sannarlega skemmtileg þrettándagleði í fallegu veðri í Vogunum.