Á Þorláksmessu er jólaboðskapurinn efst í huga. Það er friður yfir bænum og á stundum sem þessum áttar maður sig vel á hve gott er að búa í fámennu og rólegu samfélagi. Það er gott að geta farið stutta leið á höfuðborgarsvæðið og í Reykjanesbæ til að versla, en það er enn betra að koma heim í friðinn og sinna jólaundirbúningi í faðmi fjölskyldu og vina. Fjölmargir nýir íbúar í Vogum eru að upplifa þetta í fyrsta sinn og vonandi líkar þeim vel.
Það er gaman að sjá hve vel hefur tekist til við að skreyta bæinn. Á flestum húsum eru fallegar skreytingar sem veita okkur bæði gleði í hjarta og lýsir upp skammdegið. Nú er skammdegið á undanhaldi og birtir með hverjum deginum.
Boðskapur jólanna er ekki síst sá að gefa af sér. Ekki aðeins gjafir og góða hluti, heldur einnig vináttu og kærleika. Í ört vaxandi samfélagi er mikilvægt að gæta vel að samskiptum og gefa hvort öðru bros og hlýleg orð. Um hátíðarnar gefast góð tækifæri til að kynnast nýju fólki og taka þátt í sameiginlegum viðburðum sem tengjast jólum og áramótum.
Fyrir hönd bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga óska ég bæjarbúum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri
Mynd
Jólahús Sveitarfélagsins Voga 2007, að Brekkugötu 4.