Versa vottun hefur veitt Sveitarfélaginu Vogum jafnlaunavottun og á grundvelli þess hefur Jafnréttisstofa veitt sveitarfélaginu heimild til að nota jafnlaunamerkið eins og sjá má á forsíðu heimasíðunnar.
Með þessu staðfestir Versa vottun að sveitarfélagið reki vottað jafnlaunakerfi samkvæmt jafnlaunastaðli ÍST 85:2012 og uppfylli skilyrði staðalsins.
Vinna við uppsetningu og innleiðingu kerfisins hefur staðið yfir í um eitt ár en kerfið miðar að því að tryggja að starfsfólk sem vinni sömu eða jafnverðmæt störf hafi sambærileg laun óháð kynferði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með lögum nr. 56/2017 sem fólu í sér breytingu á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lög nr. 150/2020 tóku svo gildi 6. janúar 2021 og 7. gr. þeirra laga kveður á um að fyrirtæki eða stofnun þar sem starfa 25 manns eða fleiri á ársgrundvelli skuli öðlast jafnlaunavottun.
Jafnlaunastefnu Sveitarfélagsins Voga má finna á vef sveitarfélagsins. Jafnlaunavottun er ekki lokapunktur heldur einungis upphafið að ferli þar sem sveitarfélagið leitar leiða til að ná markmiðum stefnunnar og jafnlaunakerfið er tekið út árlega og endurnýja þarf vottunina í heild sinni á þriggja ára fresti. Þessi fyrsta vottun gildir því til ársins 2024.