Fyrir páska þ.e. á árshátíð skólans þann 13. mars s.l. var íþróttamaður ársins valinn. Íþrótta og tómstundarnefnd fengu nokkrar tilnefningar en voru þau einróma sammála um það að Haukur Örn Harðarson yrði fyrir valinu.
Haukur Örn var 12 ára þegar hann fór að æfa fótbolta með Njarðvík í samstarfi við Þrótt. Í framhaldi af því færði Haukur sig alfarið til Njarðvíkur og tók hann þar miklum framförum með hverju árinu.
Í ágúst árið 2005 var honum boðið til æfinga hjá fyrstudeildarliðinu Plymouth Argyle á Englandi, Haukur Örn var þá að spila með 4. flokk og var tveimur efnilegum iðkendum úr Njarðvík boðið til æfinga hjá félaginu. Á uppskeruhátíð yngri flokka hjá knattspyrnudeild Njarðvíkur í september 2006 var Haukur Örn valinn leikmaður ársins.
Árið 2006 var hann fyrst boðaður á úrtaksæfingar hjá unglingalandsliðinu U-16 og var í framhaldi af þeim æfingum valinn í U-17 landsliðið sem fór á Norðurlandamótið sem haldið var í Danmörku í júlí/ágúst 2007 og stóð hann sig vel á því móti. Síðastliðið haust var hann svo aftur valinn í U-17 hópinn sem fór til Serbíu og tók þátt í undankeppni fyrir EM 2008 og stóð sig einnig vel.
Í maí 2007 var Hauki Erni boðið að skoða aðstöðu hjá Hollenska félaginu Willem II í Tilburg, í framhaldi af þeirri heimsókn var honum boðið að spila með unglingaliðinu hjá Willem II og flaug út í byrjun ágúst sl. Um áramótin ákvað Haukur Örn að koma aftur heim, á meðan hann æfði og spilaði með Willem II bætti hann sig mikið tæknilega og líkamlega auk þess sem hann tók út mikinn þroska að flytja erlendis og standa sig vel þar. Hann byrjaði strax að æfa með Njarðvík og hefur hann spilað nokkra leiki með meistaraflokk Njarðvíkur frá áramótum.
ÍTV og tómstundafulltrúi óska Hauki Erni innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og er hann vel að titlinum íþróttmaður ársins kominn.