Á gamlársdag var opinberað hver hlaut hvatningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga og einnig hver var útnefndur íþróttamaður ársins í sveitarfélaginu.
Að þessu sinni var Ellen Lind Ísaksdóttir útnefnd íþróttamaður ársins og Aron Kristinsson fékk hvatningarverðlaunin.
Ellen Lind er handhafi titilsins sterkasta kona Íslands árið 2019 og tók að auki þátt í öðrum mótum á síðastliðnu ári með góðum árangri. Hún segist vera rétt að byrja og bindum við miklar vonir við þessa flottu íþróttakonu í framtíðinni. Að auki kom fram í rökstuðningi með tilnefningu að Ellen er sönn fyrirmynd í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur, gríðarlega framtakssöm og dugleg. Einnig er hún lítillát og kurteis í framkomu, hjálpsöm og hlý við alla sem hún umgengst.
Hvatningarverðlaun sveitarfélagsins hlaut að þessu sinni Aron Kristinsson. Aron er 12 ára og hefur æft dans frá sl 3 ár í Danskompaní. Hann æfir jazzballet, nútímadans, hip hop, klassískan ballet og leiklist ásamt þvi að vera í ýmsum leiðleika, og tæknitímum líka. Aron er mjög metnaðarfullur og hefur mikla ástríðu fyrir dansinum. Hann leggur sig alltaf allan fram og tekur dansæfingar fram yfir allt annað. Hann þykir mjög efnilegur dansari og stefnir langt í dansinum. Aron er mjög góð fyrirmynd, ekki síst fyrir aðra drengi sem því miður hafa ekki alltaf þor til að æfa dans.
Sveitarfélagið óskar Ellen og Aroni til hamingju með árangurinn og vonar að þetta verði þeim hvatning til áframhaldandi góðra verka á íþróttasviðinu.