Miðvikudaginn 24. mars n.k. heimsækir Íslenski dansflokkurinn nemendur Stóru-Vogaskóla. Danshöfundur, fjórir dansarar og tónlistarmenn koma með nýtt verkefni undir merkjum Tónlistar fyrir alla. Tónlist fyrir alla er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að kenna íslenskum skólabörnum að meta ólíkar tegundir tónlistar.
Að þessu sinni er það ekki aðeins tónlist sem verið er að kynna fyrir nemendum, heldur einnig dans. Enn fremur fá nemendur að kynnast því hvað felst í danslistinni og hvernig dansverk eru smíðuð. Peter Anderson, dansari Íslenska dansflokksins hannar verkefnið og vinnur hann það ásamt 4 dönsurum og tveim tónlistarmönnum.
Verkefnið er unnið með öllum aldursstigum skólanna. Í stað þess að sýna nemendum dans, munu nemendurnir gerast virkir þátttakendurndur í dansinum með óbeinum hætti.
Uppbygging verkefnisins er þannig að danshöfundur, dansarar og tónlistarmenn hafa undirbúið sig áður en komið er í skólana, en ekki er tilbúið fullmótað dansverk. Þegar að mætt er í skólana hefst síðan danssmíðin fyrir alvöru. Í samvinnu við nemendur er dansspor og hreyfingar sett saman á mismunandi vegu og prófað sig áfram með tónlistina. Í sameingingu semja þau dansverk sem dansararnir svo flytja.
Þetta verkefni gefur börnum kost á að upplifa dans, danssköpun og tónlist á virkan og krefjandi hátt og í lok dagskránnar finna nemendur fyrir því að þeir hafi átt stóran þátt í sköpuninni, en hafa ekki verið mataðir af skemmtiefni. Þetta er verðugt nýtt verkefni sem eykur reynslu bæði nemenda Stóru-Vogaskóla og Íslenska dansflokksins.