Almannavarnir hafa sent frá sér tilmæli vegna landriss og jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga. Í frétt frá almannavörnum kemur fram að landris mælist enn vestan við Þorbjörn og yfir 8.000 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan í lok janúar.
Langflest hús á Íslandi eru byggð þannig að þau eigi að standast þá skjálfta sem líkur eru á að geti orðið. Hins vegar gætu lausir munir farið af stað og valdið hættu. Fólk er því hvatt til að fara yfir heimili sín og tryggja óstöðuga innanstokksmuni til að koma í veg fyrir tjón á þeim eða líkamsmeiðsl á fólki ef þeir falla.