Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2006-2026
Íbúafundur miðvikudaginn 29. mars kl. 20
Hafin er endurskoðun á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga en núgildandi aðalskipulag er frá árinu 1994.
Samkvæmt skipulagslögum (lög nr. 73/1997) ber sveitarstjórnum að gera aðalskipulag er nær til alls lands innan marka sveitarfélagsins. Í aðalskipulaginu kemur m.a. fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og veitukerfi, umhverfismál og þróun byggðar til a.m.k. næstu 12 ára.
Þann 15. febrúar s.l. var haldinn íbúafundur um aðalskipulag vegna málefna í og umhverfis þéttbýlið í Vogum. Nú er boðað til fundar um aðalskipulag vegna málefna í dreifbýli í sveitarfélaginu en jafnframt verður fjallað áfram um þéttbýlið í Vogum. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 29. mars kl. 20 í Tjarnarsal (við skólann) og eru sem flestir hvattir til að mæta.
Forsenda þess að hægt sé að móta raunhæfa skipulagsáætlun er að virk samvinna takist milli bæjaryfirvalda, landeigenda og annarra hagsmunaaðila um gerð skipulagsins. Það er því mikilvægt að landeigendur, íbúar og aðrir hagsmunaaðilar eigi kost á að fylgjast með og taka þátt í aðalskipulagsferlinu. Þekking íbúa á staðháttum og hugmyndir um landnýtingu eru upplýsingar sem munu nýtast inn í skipulagsvinnuna. Til að hægt sé að taka sem mest tillit til áforma landeigenda og ábúenda um notkun á sínu landi er nauðsynlegt að þeim upplýsingum verði miðlað til bæjaryfirvalda, og er áðurnefndur íbúafundur góður vettvangur slíkra samskipta.
Virðingarfyllst,
Jóhanna Reynisdóttir bæjarstjóri.