Íbúafjölgun

Í júní 1999 var 5 ára markaðsáætlun kynnt í Vogum meðal byggingaverktaka, fasteignasala, bankastofnana og fréttamanna. Tilgangurinn var að kynna kosti Voga sem vænlegan kost fyrir þá sem vilja vera nálægt höfuðborgarsvæðinu og búa í rólegu og fjölskylduvænu umhverfi og þó í passlegri fjarlægð frá stóru atvinnusvæði. Í fáum orðum sagt þá hefur ávinningur af þessari kynningu verið framar öllum vonum og væntingum. Áður en farið var af stað var fasteignaverð hér mikið lægra en á höfuðborgarsvæðinu og til að gera Vogana samkeppnishæfari var ákveðið að lækka gatnagerðargjöld verulega. En eins og flestir vita þá hefur íbúðaverð breyst til mikilla muna. Á þessum tveimur og hálfa ári sem liðin eru frá markaðskynningunni hefur íbúðaverð hækkað hlutfallslega jafnmikið og á höfuðborgarsvæðinu s.l. 2 ár. Íbúðaverð er orðið jafnhátt og t.d. í Reykjanesbæ, að undanskildum stærri eignum. Hefur íbúðaverð hér hækkað um 40% á þessum tíma. Íbúum hefur líka fjölgað umtalsvert og getur Vatnsleysustrandarhreppur státað af næstmestri fjölgun íbúa á landinu árið 2001, að sjálfsögðu miðað við hina vinsælu hlutfallstölu.