Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Sigríður Björk Guðjónsdóttir fundaði ásamt Skúla Jónssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni með bæjarráði miðvikudaginn 2. október og kynnti nýtt fyrirkomulag hverfislöggæslu í sveitarfélaginu. Hún kynnti jafnframt til leiks Sigurð Bergmann aðalvarðstjóra, sem nú hefur tekið við umsjón með hverfislöggæslunni í Vogum og Grindavík. Sigurður er enginn nýgræðingur í lögreglunni, hefur starfað sem lögreglumaður frá árinu 1982 og því reynslumikill í starfi. Hlutverk hverfislögreglumanns felst ekki síst í því að þekkja starfssvæði sitt vel og mynda góð tengsl við íbúa og stofnanir sveitarfélagsins. Þar má nefnda barnaverndarnefndir, forvarnarnefndir, félagsþjónustu, umhverfis- og skipulagssvið, skóla, fyrirtæki og ýmis félagasamtök. Hverfislögreglumaður tekur jafnframt virkan þátt í starfsemi forvarnarteymis sveitarfélagsins. Sveitarfélagið Vogar býður Sigurð velkominn til starfa í sveitarfélaginu og væntir góðs af samstarfinu um leið og fagnað er auknum áherslum í hverfalöggæslunni.