Í morgun, þann 28. júní, rak höfrung á fjöruna syðst við þéttbýlið í Vogum. Þetta er kýr, 280 cm á lengd, með kálf í burðarliðnum. Kýrin var að mestu óskemmd að sjá nema hvað fugl var búinn að kroppa auga úr henni og húðin dálítið rispuð og upplituð. Búið var að éta allt innan úr kálfinum þannig að lítið er eftir að honum nema skinn og bein. Kálfurinn hefur fæðst með sporðinn á undan og líklega hefur fæðingin stöðvast á bægslunum. Þessi höfrungur er að öllum líkindum tegundin hnýðingur (Lagenorhynchus albirostris).
Hvalurinn sést vel frá enda Hvammsgötu og auðvelt aðgengi að honum. Sjór mun flæða undir hvalinn upp úr hádegi og líklegt að hann fari á flot og reki aftur einhvers staðar í nágrenninu því sjór er nær sléttur.
Fréttin spurðist út í Vogum og fóru nokkrir niður í fjöru til að líta á þessi dýr. Meðal annarra kom hópur barna úr leikskólanum Suðurvöllum og skoðuðu og spurðu margs. Þetta eru falleg dýr sem sjaldan gefst svo gott færi að skoða en mjög sorglegt að sjá móður og kálf bæði dauð og banameinið erfið fæðing. Eitt barnið benti á að það hefði verið gott ef höfrungurinn hefði komist til dýralæknis.