Hundaeigendur athugið

Af gefnu tilefni er athygli vakin á samþykkt um hundahald á Suðurnesjum sem aðgengileg er á vef Sveitarfélagsins Voga og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Þar segir meðal annars að hundur skuli aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Í því felst að börn eiga ekki að viðra hunda sem þau hafa ekki vald á.

Ennfremur er lögð sú skylda á hendur hundeigendum að þeir viðhafi fullkomið hreinlæti í meðferð hunda sinna og m.a. fjarlægja hundaskít. Í því felst að hundeigendur skuli hafa með sér poka og önnur nauðsynleg áhöld til að hreinsa upp eftir hunda sína og henda í næstu tunnu eða taka með sér heim. Sveitarfélagið fjölgaði tunnum við göngustíga síðastliðið sumar og því ætti ekki að vera löng leið að næstu tunnu.

Að lokum er ástæða til að vekja athygli á þeirri skyldu hundeigenda að koma í veg fyrir að hundar þeirra valdi öðrum ónæði, svo sem með gelti eða spangóli. Íbúar eru hvattir til að vekja athygli hundaeigenda á þessum skyldum sínum.

Hundar eru skemmtilegir félagar og góð gæludýr. Það er undir hundeigendum komið að samvist hunda og manna sé góð.