Hraunsel - seljabúskapur

Grindavíkurbær og Saltfisksetrið bjóða upp á þjóðháttakynningu  um seljabúskap laugardaginn 12. júlí. Mæting er kl. 11 við Ísólfsskála sem er um 10 km austur frá Grindavík á Krýsuvíkurleið.

Frá Ísólfsskála verður haldið að Méltunnuklifi og þaðan gengið eftir slóða inn í Hraunsel sem er undir Núpshlíðarhálsi. Gangan er greiðfær og tekur um 2-3 tíma með fræðslustoppum. Hraunsel er sel frá Hrauni í Grindavík og er með yngstu seljum á Reykjanesskaganum frá 1914. Í selinu má sjá heillegar tóftir selsmannvirkja. Þar verður áð og nesti borðað. Leiðsögumenn verða með í för og fræða um seljabúskapinn og það sem fyrir augu ber á leiðinni. Áætlað er að koma til baka að Ísólfsskála um kl. 15:00.

Mjög lítið hefur verið skrifað um sel og seljabúskap hér á landi og nær ekkert á Reykjanesskaganum, þrátt fyrir að enn megi sjá fjölda margar sýnilegar selstöður. Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur beint við þá gömlu búskaparhætti, sem þar tíðkuðust um aldir. Féð var yfirleitt haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í seljum voru m.a. selsmalinn og selráðskonan og þar voru gerðir ostar, skyr, smjör og sýra úr mjólkinni. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.

Frekari upplýsingar
www.sjfmenningarmidlun.is  /gsm 6918828.