Hingað og ekki lengra !

 

Í dag var sett af stað verkefnið Hingað og ekki lengra, en það er áhugafólk um bætta umferðarmenningu á Suðurnesjum sem stendur að verkefninu og hefur í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu, lögregluna, umferðarstofu, ökukennara, Vegagerðina og aðra þá sem áhuga hafa á umferðarmálum kynnt metnaðarfulla áætlun um baráttuna við ofbeldi í umferðinni.

Á fundinum áttu Vogar glæsilegan fulltrúa, en Tinna Guðrún Lúðvíksdóttir sagði frá reynslu sinni af notkun ökurita í bíl sínum eftir bílpróf. Tinna náði þeim frábæra árangri að gera aðeins 18 villur í akstri á þriggja mánaða tímabili, þar sem hún keyrði um 8.000 km. Á tímabilinu fór hún aldrei yfir leyfilegan hámarkshraða, en mesti hraði hennar á tímabilinu var 88 km/klst á Reykjanesbrautinni.

Á fundinum kynnti lögreglan áætlun um aukinn sýnileika í umferðinni og nýtt netfang sem íbúar geta nýtt sér til að tilkynna lögreglu um umferðarlagabrot. Netfangið logreglan@dc.is, verður virkt í næstu viku.

Notkun ökurita í bifreiðar var einnig kynnt, en nánar má lesa um þá á vefnum www.nd.is . Auk þess kynnti Ökukennarafélag Íslands, www.aka.is, sérstaka samninga sem foreldrar geta gert við börn sín um ábyrga hegðun í umferðinni.

Vogar eru um margt sérstakt sveitarfélag þegar kemur að umferðarmálum. Innan sveitarfélagsins er ein mesta umferðarbraut landsins, Reykjanesbrautin, þar sem hraði getur orðið mjög mikill. Auk þess er innan sveitarfélagsins hefðbundinn safnvegur í dreifbýli, þar sem Vatnsleysustrandarvegurinn er. Síðast en ekki síst er hér rólegt og gott þéttbýli, þar sem hámarkshraði er 30 km/klst.

 

Bæjaryfirvöld hafa sett sér það markmið að auka umferðaröryggi í bænum. Í því skyni hafa farið fram viðræður við nýskipað lögregluembætti Suðurnesja um aukna löggæslu. Auk þess er undirbúningi samstarf á sviði forvarna við tryggingafélag sveitarfélagsins.

 

Það er afar mikilvægt að allir taki höndum saman gegn hraðakstri og annarri óæskilegri hegðun í umferðinni. Tinna Guðrún ætti að vera fyrirmynd okkar allra. Sýnum tillitsemi og varkárni í umferðinni og segjum hingað og ekki lengra !