Heimildamyndakvöld í Minni-Vogum

Fimmtudaginn 13. nóvember kl. 20:00 verður heimildamyndakvöld í Minni-Vogum, Egilsgötu 8 Vogum.

Að þessu sinni verður færeysk-íslenska heimildamyndin Fríur Fantasiur sýnd en þar kynnumst við tveimur rosknum konum, Ritu og Gunnhild, sem búa í Færeyjum. Þær láta aldurinn ekki aftra sér heldur leyfa sköpunarkraftinum og hugarfluginu að fá útrás. Konurnar tvær beita ólíkum aðferðum við listsköpun sína en eiga það sameiginlegt að vinna með garðinn - því  " ekki getur maður horft á sjónvarpið allann daginn, eða hvað ". Guðný Rúnarsdóttir sá um stjórn og klippingu myndarinnar en Markús Bjarnason um kvikmyndatöku og tónlist.

Myndin er um 30 mínútur að lengd og leyfð öllum aldurshópum.

Eins og áður er aðgangur ókeypis og heitt verður á könnunni.

Það er menningarverkefnið Hlaðan sem stendur fyrir sýningunni en á vegum þess er einnig starfrækt gestavinnustofa fyrir listamenn af öllu tagi. Um þessar mundir dvelur Kristín Björk Kristjánsdóttir tón- og myndlistamaður í gestavinnustofunni en hún mun opna einkasýningu í Suðsuðvestur nk. laugardag. Viðburðurinn er líkt og allir aðrir sem haldnir eru á vegum Hlöðunnar styrktur af Menningarráði Suðurnesja. Nánari upplýsingar um verkefnið og dagskrá Hlöðunnar er að finna á www.hladan.org

Íbúar Voga eru hvattir til þess að koma saman og lyfta sér upp í Minni-Vogum á fimmtudagskvöld!