Heilsuefling á Suðurnesjum

 

 

Sveitarfélagið Vogar hefur tekið þátt í verkefninu Heilsuefling á Suðurnesjum af krafti. Markmið verkefnisins er að breyta lífstíl Suðurnesjamanna með kerfisbundinni hreyfingu og heilsueftirliti. Verkefnið er unnið að frumkvæði Hjartaheilla á Suðurnesjum og má ætla að hér sé um að ræða stærsta heilsuverndarátak sem ráðist hefur verið í á afmörkuðu svæði á Íslandi

 

Allir starfsmenn sveitarfélagsins fengu göngustafi í jólagjöf síðastliðin jól og hafa verið haldin tvö stafgöngunámskeið sem voru opin öllum íbúum sveitarfélagsins. Mæting var nokkuð góð, eða rúmlega 20 manns. Stafganga er mjög góð hreyfing sem hægt er að stunda nánast hvar sem er.

Starfsmönnum Sveitarfélagsins Voga stóð ennfremur til boða að fá mælingu á heilsufari sínu og fá ráðgjöf um heilbrigt líferni. Það var hjúkrunarfyrirtækið InPro sem sá um þær mælingar og ráðgjöf. Rúmlega helmingur starfsmanna nýtti sér þetta tækifæri. Með heilsufarsmælingunum fylgir einnig frí áskrift að heilsuvefnum www.doktor.is, ásamt símaráðgjöf um heilsufarsmál og sérstakur hreyfiseðill til að auðvelda eftirfylgni. Á hreyfiseðlinum koma síðan fram fjölmörg tilboð til þeirra einstaklinga sem taka þátt í átakinu.

Á vegum Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ er boðið upp á ýmsa fræðslu í tengslum við verkefnið og má nálgast upplýsingar um það á vefnum www.akademia.is