Þjónustuhópur aldraðra sem starfar í heilsugæsluumdæmi Suðurnesja vinnur nú að rannsókn á heilsu og líðan aldraðra á Suðurnesjum. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Maskínu og er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja. Byggir hún á stærri könnun á vegum Landlæknisembættisins sem nefnist Heilsa og líðan.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að leggja mat á heilsu, líðan og lífsgæði aldraðra og er úrtak þátttakenda, aldraðra úr öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum.
Með því að gera þessa rannsókn, sýna sveitarfélögin á Suðurnesjum vilja til að fylgjast með þróun og afla upplýsinga um stöðu aldraðra. Niðurstöður slíkrar rannsóknar geta reynst dýrmætur efniviður í aukinni uppbyggingu á öldrunarþjónustu á Suðurnesjum til framtíðar.
Allir sem eru 67 ára og eldri og búsettir á Suðurnesjum eru í úrtakshópnum og haft verður samband við þá sem lenda í úrtakinu símleiðis. Boðið verður upp á að svara símleiðis eða fá könnunina senda á netfang eða á pappír. Öll göng rannsóknarinnar verða dulkóðuð og tengsl á milli einstaklinga og svara slitin að rannsókn lokinni.
Þátttaka ykkar kæru eldri borgarar skiptir miklu og auðveldar sýn á hvernig best er að byggja upp og bæta þjónustuna og þannig auka lífsgæði og lífsgleði ykkar.
F.h. Þjónustuhóps aldraðra á Suðurnesjum
Margrét Blöndal
Guðrún Björg Sigurðardóttir
Ása Eyjólfsdóttir
Jórunn Guðmundsdóttir